Ávarp framkvæmdastjóra

Sjálfbærni

Það er ákaflega mikilvægt fyrir FISK Seafood að skilningur fólks á mikilvægi heilnæmra matvæla og vönduðum vinnubrögðum við framleiðslu þeirra haldi áfram að vaxa. Virðing okkar fyrir auðlindum móður Jarðar og sjálfbærri nýtingu þeirra hefur gjörbreyst til hins betra á undanförnum árum. Á sama tíma eru gerðar stöðugt vaxandi kröfur til framleiðsluhátta fyrirtækja um allan heim og hollustu þeirra við samfélag sitt og umhverfi. Ef rétt er á málum haldið getur þessi alþjóðlega hugarfarsbreyting skapað íslenskri matvælaframleiðslu, og þá ekki síst sjávarútveginum, dýrmætt samkeppnisforskot á næstu árum. 

Sjálfbærni í rekstri fyrirtækja teygir sig út í alla króka og kima starfseminnar. Enginn efast lengur um mikilvægi hennar og sem betur fer er sjálfbærni víðast hvar orðin að metnaðarfullum lífsstíl í atvinnulífinu bæði hérlendis og erlendis. Grunnstefið er einfalt: Að haga rekstri líðandi stundar þannig að við getum rétt sama keflið áfram til barna okkar og komandi kynslóða. Við erum því krafin um ábyrgðarfulla heildarhugsun til langs tíma í stað skammtímalausna og skyndigróða. 

Í þessu er mikil áskorun fólgin og FISK Seafood tekur henni fagnandi. Okkur er treyst fyrir nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda og berum þannig mikla ábyrgð gagnvart íslensku samfélagi. Tvær af meginstoðum sjálfbærninnar eru einmitt umhverfið og samfélagið. Sú þriðja er efnahagurinn. Enginn rekstur getur talist sjálfbær nema hann skili jákvæðri afkomu, greiði starfsfólki sínu eðlileg laun, skili sköttum og skyldum til samfélagins og sé á sama tíma samkeppnishæfur á markaði.

Það er alla daga tilhlökkunarefni að nálgast verkefni rekstursins í eins mikilli sátt við umhverfið og samfélagið og kostur er. Og það þarf einnig að gerast með  sjálfbærum hætti á efnahagshliðinni. Enda þótt gjarnan sé sagt að kurteisi kosti ekki peninga gegnir öðru máli um þau mælanlegu markmið og viðmið sem við höfum í umgengni okkar við náttúru og samfélag. Sjálfbærni krefst ýmissa útgjalda. Þeim kostnaði verður seint hægt að velta út í verðlagið og allra síst þegar keppt er á heimsmarkaði við framleiðslu sem mögulega styttir sér leið í þessum efnum.

Ég hef áður gert smæð íslenskra fiskveiða að umtalsefni á þessum vettvangi. Láta mun nærri að allur íslenski sjávarútvegurinn nái einungis tæplega hálfu prósenti af heildarneyslu heimsbyggðarinnar á fiskafurðum þegar eldisfiskur er talinn með. Villtir fiskistofnar í hafinu eru langt í frá ótakmörkuð auðlind og verða það aldrei. Þess vegna stýrum við Íslendingar fiskveiðum okkar með kvótakerfinu sem sannað hefur ágæti sitt um langt skeið. Engu að síður er nauðsynlegt að stórauka hafrannsóknir til þess að eyða hinum endalausu þrætum um hvort rétt sé reiknað og rétt gefið þegar kvóta hvers árs er úthlutað. Um það meginmarkmið að nýta fiskistofnana með sjálfbærum hætti er hins vegar ekki deilt og öllum er ljóst mikilvægi þess að vernda lífríki sjávar með öllum tiltækum ráðum.

Í þeim efnum ráðum við Íslendingar ekki einir för. Við getum tekið þátt í allri umræðu, reynt að hafa áhrif, stutt við alþjóðlegt vísindastarf og áfram mætti lengi telja. Hafið þekkir hins vegar engin landamæri frekar en loftið og við erum alla daga háð því hvernig alþjóðasamfélaginu tekst upp við varðveislu þessara miklu auðlinda. Gamla máltækið um að lengi taki sjórinn við er ekki einungis löngu orðið úrelt heldur beinlínis fáránlegt í ljósi þess veruleika sem við blasir í hafi allra heimshorna.

Væntanlega reiða fáar þjóðir sig meira á verðmætasköpun úr sjó en við Íslendingar. Enda þótt við höfum hvorki vald né burði til þess að taka til hendinni utan okkar eigin lögsögu ber okkur skylda til þess að varðveita það lífríki sem okkur er trúað fyrir og hefur verið lífsbjörg okkar og fjöregg verðmætasköpunar um aldir. Það er bjargföst sannfæring mín að í þeirri varðstöðu getum við gert margt betur. 

Fisk Seafood keppir með villibráð sína við fjölbreytt framboð af ræktuðu próteini. Það kemur m.a. úr kjötgeiranum og jurtaríkinu, skordýraræktun o.fl. Síðast en ekki síst er samkeppnin við eldisfiskinn hörð. Augljóst er að í hvers kyns próteinræktun má lengi auka magnið án sérstakra kvótaskerðinga, afhendingaröryggið er óháð stofnstærðum villtra tegunda frá ári til árs og gæðin tiltölulega einsleit. Samkeppnisumhverfi FISK Seafood er því krefjandi alla daga ársins og ennþá frekar ef sjálfbærniviðmið eru ólík á milli atvinnugreina og heimshorna.

Ég er ekki í vafa um að samhliða stöðugt vaxandi kröfum neytenda um upprunamerkingar og vistvæna framleiðsluhætti muni villt sjávarfang áfram skipa sinn verðuga sess á hlaðborði heilnæmra matvæla. Það er samt áhyggjuefni um þessar mundir að afkoma heimila á helstu markaðssvæðum okkar er erfið og þörfin fyrir ódýrari valkosti mikil. Fiskverð á heimsmarkaði hefur farið lækkandi en verð á aðföngum, m.a. vegna stríðsátaka, hefur hækkað. Þegar verðbólgan á Íslandi bætist við má FISK Seafood una vel við afkomu sína á síðasta ári. Við höfum náð að stíga ölduna af varfærni, haga seglum eftir vindi og leggja grunn að góðri afkomu með samhentu átaki þrautreyndra starfsmanna. Í þeim stóra og góða hópi hafa allir róið í sömu átt með hagsmuni félagsins í öndvegi.