Starfsemin

Veiðar

Um áramótin gerði samstæða FISK Seafood út fimm togara, eitt línuskip og tvo dragnótarbáta. 

Arnar HU-1 er smíðaður í Langsten Slip árið 1986 og er á sjófrystingu. Áhöfn skipsins samanstendur af 54 einstaklingum sem skipta róðrum á milli sín. Yfirleitt rær hvor áhöfn í 25-35 daga í senn og tekur svo sambærilega langt frí. Skipstjórar eru Guðmundur Henrý Stefánsson og Guðjón Guðjónsson.

Málmey SK-1 er smíðuð í Flekkafjord slipp og Mask árið 1987. Í áhöfn eru 25 einstaklingar sem skipta róðrum á milli sín, en fimmtán eru um borð á hverjum tíma. Skipstjórar eru Björn Jónasson, Þórarinn Hlöðversson og Hermann Einarsson. Þorskur og ufsi fer að langmestu leyti til vinnslu á Sauðárkróki en annar afli fer á markað. 

Drangey SK-2 er smíðuð í Cemre Shipyard árið 2017. Í áhöfn eru 25 einstaklingar sem skipta róðrum á milli sín með sama hætti og gert er á Málmey og með jafnmarga um borð hverju sinni. Skipstjórar eru Ágúst Óðinn Ómarsson og Halldór Þorsteinn Gestsson. Mestur hluti þorsk- og ufsaafla fer til vinnslu á Sauðárkróki en annar afli fer á markað.

Sigurborg SH-12 er smíðuð af Nordship árið 2007. Skipið kom inn í rekstur Soffaníasar Cecilssonar haustið 2019 og er gert út frá Grundarfirði. Í áhöfn eru tólf einstaklingar og eru níu um borð hverju sinni. Skipstjóri er Ómar Þorleifsson. Mestur hluti þorsks og ufsa fer til vinnslu hjá Soffaníasi Cecilssyni en eftir atvikum einnig á Sauðárkók. Annar afli er settur á markað.

Farsæll SH-30 er smíðaður af Ching FU Shipbuilding Co Ltd. árið 2009. Skipið kom inn í rekstur FISK Seafood haustið 2019 og er gert út frá Grundarfirði. Eins og á Sigurborgu eru tólf í áhöfn og níu þeirra til sjós hverju sinni. Skipstjóri er Guðmundur Snorrason. Mestur hluti þorsks og ufsa fer til vinnslu hjá Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði en einnig er aflinn stundum tekinn til vinnslu á Sauðárkóki. Annar afli er settur á markað.

Steinunn SH-167 er dragnótarbátur sem smíðaður var í Stálvík árið 1971. Í áhöfn eru níu einstaklingar sem skipta með sér róðum og er skipið gert út frá Ólafsvík. Skipstjóri er Oddur Brynjarsson og fer allur afli á fiskmarkað. Aflinn af Steinunni kom að fullu til vinnslu hjá félaginu á kvótaáramótunum 2023. Steinunn er því þetta árið einungis að hluta til í sjálfbærniskýrslu samstæðunnar. Starfsfólk Steinunnar er talið með í starfsmannafjölda samstæðunnar og rekstrartekjur félagsins koma fram í ársreikningi og sjálfbærniskýrslu fyrir starfsárið 2022.

Tryggvi Eðvarðs SH-3 er krókabátur smíðaður í Hafnarfirði og Póllandi árið 1999. FISK Seafood leigir skipið og kvóta þess og gerir það út frá Ólafsvík. Í áhöfn eru 8 einstaklingar sem skiptast á um vinnu í  u.þ.b. tveggja vikna löngum róðrartímabilum. Skipstjórar eru Gylfi Scheving Ásbjörnsson og Friðrik Ólafsson. Stærstur hluti þorsks- og ufsaaflans fer til vinnslu hjá Soffaníasi Cecilssyni en annar afli er settur á markað.

Lundey SK-3 er smíðuð af Trefjum árið 2007. Í áhöfn voru 3 einstaklingar sem stunduðu tilraunaveiðar í Skagafirði. Skipstjóri var Ásbjörn Óttarsson. Afli bátsins fór ýmist til vinnslu hjá FISK Seafood eða á markað. Lundey var lagt og síðan seld í nóvember 2023. 

Hafdís SK-4 er smíðuð á Ísafirði árið 2010. Skipið var keypt til félagsins í október 2023 og er gert út á dragnótarveiðar. Skipstjóri er Ábjörn Óttarsson og með honum eru tveir aðrir í áhöfn. Afli skipsins fer ýmist til vinnslu hjá FISK Seafood eða á markað.

Veiddur afli

image description

Kvótaskerðing og aðrar rekstrarlegar áskoranir

Kvótaskerðingar síðustu ára hafa reynst félaginu áskorun en hingað til hefur tekist að halda fullri starfsemi án þess að leggja skipum eða loka vinnslum. Mikill niðurskurður varð í botnfiskheimildum samstæðunnar kvótaárið 22/23, eða 6% í þorski og 20% í gull- og djúpkarfa. Aukning í ýsu nam hins vegar 23%. Frá kvótaárinu 20/21 til 22/23, hafa úthlutaðar heimildir samstæðunnar í þorski verið skertar um 20%, í gullkarfa um 39% og djúpkarfa um 49%. 

Á kvótaárinu 23/24 hélt skerðingin áfram í ákveðnum tegundum og munar þar mest um 100% skerðingu í djúpkarfa. Hins vegar jókst heildarkvóti FISK Seafood í þorskígildum og vegur 23% hækkun í ýsu þyngst í þeim efnum. Líkt og árið 2022 þurfti að sleppa tveimur veiðiferðum Arnars HU-1 í rússneska hluta Barentshafs vegna kvótaskerðingar og í norska hlutanum var um 50% skerðing á veiðiheimildum.

Og það reynir víðar á aðlögunarhæfni að breytingum í rekstrarumhverfinu. Í ákveðnum tilfellum er um hægfara þróun að ræða en samt gríðarlega mikilvægar áskoranir á borð við þær að fá hæft fólk til starfa og búa þannig um hnútana að starfsmanna velta sé eins lítil og mögulegt er. Aðrar áskoranir mælast í risastökkum sbr. stækkun hafnarinnar á Sauðárkróki sem komin er á samgönguáætlun. Í tengslum við landfyllingu og dýpkun hafnarinnar opnast bæði ný tækifæri í fyrirhugaðri byggingu hátæknifrystihúss og endurnýjun skipaflotans með tilheyrandi þróun orkunotkunar í takti við metnaðarfull umhverfismarkmið.
 

Vinnslan

FISK Seafood er með starfsstöðvar á Sauðárkróki og í Grundarfirði. Á Sauðárkróki er rekin bolfiskvinnsla sem vinnur þorsk og ufsa í léttsaltaðar afurðir sem markaðsettar eru á Spáni og í Brasilíu. Einnig er rekin þurrkstöð sem þurrkar hausa og hryggi sem falla til bæði í landvinnslunni á Sauðárkróki og einnig hjá Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði. Hjá SC er framleiddur hefðbundinn saltfiskur og er hráefnið einkum þorskur, ufsi og langa. Árið 2023 voru tekin til vinnslu 8.256 tonn af fiski á Sauðárkróki og 2.459 tonn á Grundarfirði sem skiluðu tæpum 7,4 milljörðum króna í tekjur. Þurrkhúsið skilaði af sér tæplega 0,8 tonnum af afurðum.
 

Á myndunum hér að neðan má sjá þróun á hráefni til vinnslu frá 2019-2023. Áður var langstærsti hluti framleiðslunnar unninn fyrir stóreldhús og veitingastaði. Á meðan á heimsfaraldrinum stóð rifaði félagið seglin og breytti um áherslur með því að auka framleiðslu á smærri flökum fyrir smásölumarkaðinn þegar hótelum og veitingastöðum var gert að loka. Tekið var inn meira af ódýrari tegund (ufsa) til vinnslu til að koma til móts við þolmörk í verði. Síðan þá hefur hráefnisverð á markaði verið mjög hátt miðað við söluverð á fiskafurðum. Þetta samspil ásamt kvótaskerðingum útskýrir minnkað magn hráefnis til vinnslu árið 2023.
 

Þróun á hráefni

Gæðamál

FISK Seafood selur langstærstan hluta afurða sinna á erlendan markað og þar skiptir miklu máli að kröfum um gæði og stöðugleika sé mætt í hvívetna. Heilnæmi afurðanna og rekjanleiki þeirra er kaupendum mjög hugleikinn og stendur Ísland framarlega í þeim efnum. Hjá FISK Seafood er unnið eftir kerfi sem tryggir með óyggjandi og gagnsæjum hætti rekjanleika afurða frá veiðum til kaupenda. Hefur félagið hlotið tvennskonar vottun, annars vegar MSC og hins vegar IRF, á áreiðanleika þeirra upplýsinga. 

Allar starfsstöðvar félagsins starfa samkvæmt GÁMES hættugreiningu (Greining Áhættuþátta og Mikilvægra EftirlitsStaða), sem á ensku er skammstafað HACCP. Matvælastofnun (MAST) fer með eftirlit á öllum starfsstöðvum FISK Seafood og heldur félagið á nokkrum leyfisnúmerum ýmist til framleiðslu eða geymslu á afurðum. FISK Seafood hefur starfað samkvæmt International Food standard (IFS) síðan árið 2012 en ekki hefur enn þá verið unnt að taka út starfsemina eftir heimsfaraldurinn. Umsókn um úttekt hefur verið samþykkt af til þess bærum þriðja aðila sem áætlar að gera úttektina á árinu 2024.

  • MSC (Marine Stewardship Council) – gild vottun
  • IRF (Iceland Responsible Fisheries) – gild vottun
  • IFS (International Food Standard)  - í endurvottunarferli

Markaðsmál

Á árinu jók FISK Seafood eignarhlut sinn í sölufyrirtækinu Iceland Seafood International og um áramótin átti félagið 11,8% hlut í félaginu. Langstærstur hluti afurða félagsins er seldur í gegnum Iceland Seafood og dótturfélag þess, Iceland Seafood Iberica. Stærstu viðskiptalönd FISK Seafood fyrir léttsaltaðar og saltaðar afurðir voru Spánn, Ítalía og Grikkland. Sjófrystar afurðir af Arnari HU-1 voru seldar til Bretlands, Póllands og Bandaríkjanna. Afurðir félagsins rötuðu þó einnig á fleiri markaði, þá sérstaklega í Mið- og Norður Evrópu. Þurrkaðar afurðir voru helst seldar til Nígeríu. Allar afurðir félagsins sem fóru í útflutning voru fluttar sjóleiðina til markaðslandanna.

Félagið hefur útflutningsleyfi til ýmissa sérleyfismarkaða utan Evrópu:

  • Landvinnsla Sauðárkróki (A404) – Brasilía, Kína og Evrasísusambandið.
  • Arnar HU-1 (A365) –  Kína, Suður-Kórea, Evrasíusambandið og Víetnam

 

Starfsemi FISK Seafood er háð nokkrum utanaðkomandi þáttum sem félagið getur lítil sem engin áhrif haft á. Meðal annars er hún háð menningu og neyslu í Suður Evrópu á framleiðsluafurðunum og hún er einnig háð kvótasetningu og lagaramma hvers tíma utan um sjávarútveg á Íslandi. Hér spilar einnig inn í efnahagsástand á helstu markaðssvæðum. Styrjaldir höfðu ekki bein áhrif á sölu afurða okkar á árinu enda stríðandi fylkingar utan þeirra þjóðlanda sem FISK Seafood á í viðskiptum við.

Fjárfestingar

Helstu fjárfestingar félagsins á árinu voru kaup félagsins á dragnótarbátnum Hafdísi SK-3. Um svipað leyti var bátnum Lundey SK-3 lagt og hann síðan seldur. Hlutabréf í Iceland Seafood International voru keypt fyrir rúmlega 317 milljónir og á félagið í dag 11,8% hlut í félaginu. Fjárfest var í aflaheimildum fyrir tæplega 1,9 milljarða króna. Á móti þessum fjárfestingum voru aflaheimildir seldar fyrir tæplega 749 milljónir.

Nýsköpun

FISK Seafood er virkur þátttakandi í verkefnum tengdum vísindarannsóknum og nýsköpun í sjávarútvegi sem nýtast bæði nærsamfélaginu og alþjóðasamfélaginu. Á árinu var undirbúningi vegna fyrirhugaðrar nýsmíði togara haldið áfram. Í þeim efnum er m.a. horft til nýs orkugjafa, sparneytni í orkunotkun og tengingar við vistvæna raforku í landi. FISK Seafood leggur sitt af mörkum í samstarfsverkefnum SFS (Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) og tekur m.a. þátt í starfi vinnuhóps samtakanna sem leitar leiða til að draga úr kolefnislosun sjávarútvegsins. 

Höfnin

Engum dylst að höfnin á Sauðárkróki er barn síns tíma og stendur nú þegar samkeppnishæfni FISK Seafood, og raunar fleiri atvinnugreinum í Skagafirði, fyrir þrifum. Bæði flutningaskip og skemmtiferðaskip hafa stækkað og þau nýjustu geta fæst athafnað sig í höfninni. Sama gildir um fyrirhugaða endurnýjun FISK Seafood í fiskveiðiflota sínum. Orkuskiptin og aðrir umhverfisþættir kalla af ýmsum ástæðum á stærri fiskiskip. Ein þeirra er sú einfalda staðreynd að vistvænt eldsneyti tekur þrefalt meira pláss um borð heldur en olían. Þess vegna verða skipin að stækka. Án þess að nútímavæða innviðina, þ.e. að dýpka og stækka höfnina, mun flotinn úreldast og glata samkeppnishæfni sinni. 
 

Um leið og ákvörðun hefur verið tekin um endurbætur á höfninni mun FISK Seafood einnig bretta upp ermar í stórhuga umbótaverkefnum á Eyrinni. Fyrirhuguð nýbygging hátæknifrystihúss er þar fremst í flokki og það liggur í augum uppi að tilhögun hennar og umfang ræðst talsvert af því hvort fjárveiting fáist til hafnarframkvæmdanna á allra næstu misserum. Á næsta ári er áætlað að hefja fyrsta hluta framkvæmdanna, það er lagfæra þil gömlu hafnarinnar.
 

Samfélagsspor

Samfélagsspor samstæðunnar gefur heildstæða mynd af öllum opinberum gjöldum og sköttum sem greiddir eru til hins opinbera vegna starfsemi félagsins. Samstæðan greiddi 2.066 milljón króna í skatta og gjöld á árinu 2023. Einnig innheimti samstæðan 1.310  milljónir kr. á árinu af starfsfólki fyrir ríkissjóð. Samfélagsspor starfseminnar árið 2023 er því alls 3.376 milljónir króna.

Samfélagsspor FISK Seafood samstæðu 2023 2022 2021
Tekjuskattur 513.328 243.740 381.553
Tryggingagjald 307.307 289.604 221.229
Mótframlag í lífeyrissjóði 432.803 396.435 323.014
Veiðigjöld 477.322 394.276 414.517
Gjöld til hafnarsjóða 163.932 147.888 120.871
Aðrir skattar og gjöld 73.881 66.730 159.151
Kolefnisgjald 97.619 91.899 93.270
Innheimtir skattar vegna einstaklinga 1.310.100 1.265.050 946.135
Samtals 3.376.293 2.803.722 2.566.110
Tölur í þúsundum króna.

Flokkunarreglugerð ESB

Flokkunarreglugerð ESB tók gildi á Íslandi 1. júní 2023 með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Markmið flokkunarreglugerðarinnar er að koma á samræmdu flokkunarkerfi sem skilgreinir hvaða atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær. 

FISK Seafood hefur tekið reglugerðina til skoðunar en kjarnastarfsemi sjávarútvegsfyrirtækja hefur ekki enn verið innleidd af Evrópusambandinu. Ástæða þess er að ákveðið var að forgangsraða atvinnugreinum sem helst valda neikvæðum loftlagsbreytingum og er sjávarútvegur og fiskvinnsla ekki á meðal þeirra. 

FISK Seafood er meðvitað um að þörf er á frekari vinnu þegar kemur að lágmarksverndarráðstöfunum, s.s. að innleiða viðmið, verklag og ferla sem snúa að mannréttindum, spillingu og mútuþægni. Á vef félagsins má finna sérstaka yfirlýsingu um þessi mál. Grunnur hefur jafnframt verið lagður að því að FISK Seafood fylgi lágmarksverndarráðstöfunum með því að tryggja starfsmönnum sínum jöfn mannréttindi, öryggi og heilbrigði í þeirri stefnumörkun og áætlunum sem þegar hafa verið gerðar, gefnar út og starfað er samkvæmt. Félagið hefur ekki gerst brotlegt við löggjöf eða reglur á sviði mannréttinda-, skatta-, spillingar-, mútu- eða samkeppnismála.

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Markmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinna efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Mikilvægt er að ríki horfi til markmiðanna á heildstæðan hátt, því þau eru margþætt og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. 

Á undanförnum árum hefur FISK Seafood þróað stefnu félagsins í ýmsum málum. Sú markmiðasetning, ásamt vottunum sem félagið hefur, styður við mörg af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. FISK Seafood tók einnig þátt í mótun samfélagssáttmála Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og skuldbatt sig um leið til þess að uppfylla hann. Heimsmarkmiðin sem félagið tengir sig sérstaklega við eru eftirgreind:

Heilsa og vellíðan

FISK Seafood hefur á síðustu árum þróað stefnu í öryggis- og vinnuverndarmálum. Félagið leggur áherslu á að auka markvisst öryggi starfsumhverfis og lágmarka slysahættu við störf. Við leitum leiða til að tryggja öryggi og heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem einelti, ofbeldi og kynbundið eða kynferðislegt áreiti er óheimilt

Jafnrétti kynjanna

Árið 2020 hlaut FISK Seafood jafnlaunavottun til staðfestingar þess að fyrirtækið tryggir jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa. Við líðum ekki mismunun og virðum fjölbreytileika. Hvers kyns misbeitingu vegna kyns, kynhneigðar, ólíks uppruna o.s.frv. er hafnað. Félagið lætur sér annt um jöfn tækifæri foreldra til töku fæðingarorlofs og samneytis við fjölskyldu sína.

Góð atvinna og hagvöxtur

FISK Seafood kappkostar að auka framleiðni með tækninýjungum og  uppbyggingu innviða. Með þessu viljum við stuðla að afkastamikilli framleiðslustarfsemi þar sem fullvinnsla og fullnýting hráefnis á sér stað í sátt við umhverfi og samfélag. Félagið er meðvitað um það hlutverk sitt að opna fólki með skerta starfsorku leiðir að atvinnutækifærum.

Nýsköpun og uppbygging

FISK Seafood er virkur þátttakandi í verkefnum tengdum nýsköpun í sjávarútvegi. Félagið vill gjarnan tengjast enn frekar vísindarannsóknum og athugunum á áhrifum sjávarútvegs á auðlindir og umhverfi.

Ábyrg neysla og framleiðsla

FISK Seafood kappkostar að nýta allt hráefni til hins ýtrasta og áframvinna hliðarafurðir eins og unnt er. Það sem eftir stendur er sent til frekari vinnslu utan fyrirtækisins. Áherslur hringrásarhagkerfisins eru jafnt hafðar til hliðsjónar í framleiðsluferlinu sem og í eigin neyslu og aðföngum.

Aðgerðir í loftlagsmálum

FISK Seafood hefur unnið að breytingum og endurnýjun í skipaflotanum á síðustu árum. Haft hefur verið að leiðarljósi að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og kostur er. Einnig hefur félagið nýtt tækifæri til þess að skipta út ósoneyðandi kælimiðlum. Stefnt er að því að auka hlutdeild vistvænna orkugjafa sem eru raunhæfir og samkeppnishæfir.

Líf í vatni

Það er hagsmunamál þjóðarinnar, og raunar heimsbyggðarinnar allrar, að nýting fiskistofna sé sjálfbær. FISK Seafood setur sér það markmið að ganga vel um auðlindir hafsins með gagnsæjum og rekjanlegum fiskveiðum og fara í hvívetna að lögum í allri starfsemi sinni. Til að staðfesta hollustu félagsins við sjálfbæra nýtingu auðlinda og ábyrgar fiskveiðar hefur FISK Seafood hlotið IRF vottun (Iceland Responsible Fisheries). Einnig er FISK Seafood og Soffanías Cecilsson með MSC rekjanleikavottun (Marine Stewardship Council) í skipum og vinnslum. Sjómönnum samstæðunnar er skylt að fylgja eftir V. viðauka MARPOL samningsins.

Enginn rekstur getur talist sjálfbær nema hann skili jákvæðri afkomu, greiði starfsfólki sínu eðlileg laun [...] og sé á sama tíma samkeppnishæfur á markaði